Eureka!Gleði og hamingja, loksins.. LOKSINS eftir tæplega fimm mánaða vinnu þá römbuðum við á einhverja vísbendingu um að hugmyndin að meistaraverkefninu mínu sé ekki algjört kjaftæði.
I have found it!
-Archimedes
Undanfarnar tvær vikur þá hefur verkefnið mitt hringsólað niðurfallið í sífellt smærri hringjum. Eftir margítrekaðar tilraunir, endalausar dead-end hugmyndir og útfærslur þá á föstudaginn síðasta tókst okkur Yngva loksins að finna fyrstu vísbendinguna um að hægt sé að bæta umtalsvert núverandi rauntíma leitaraðferðir.
Fyrir þá sem ekki vita þá fór ég í mastersnám í gervigreind og ákvað ég að sérhæfa mig sérstaklega í rauntímaleit í óþekktum umhverfum (real-time search in unknown environments). Þessar leitaraðferðir hafa verið frekar lítið kannaðar (þar sem þær eru tiltölulega nýkomnar fram.. á akademískum mælikvarða allavegana).
Rauntíma leitir hafa ýmis not, t.a.m. í leiðsögukerfi fyrir vélmenni, aksturstölvur, stjórnun netumferðar og í tölvuleikjum. Þær ganga út á það að finna sem bestu lausnina á vandamáli þar sem einungis upphafsstaðan og lokastaðan er þekkt (þ.e.a.s. við vitum hvar við byrjum og hvert við ætlum) en litlar sem engar upplýsingar eru til um umhverfið sem við ferðumst í gegnum. Ef tekið er dæmi um tölvustýrðan leikmann í tölvuleik þá veit hann hvar hann er núna staðsettur og c.a. hvert hann vill fara (t.d. að útgangi) en hann hefur enga vitneskju um hvernig nákvæmlega allt hans umhverfi lítur út (þ.e.a.s. lögun völundarhússins, leikborðsins, hreyfingar annara leikmanna eða hluta í umhverfinu o.þ.h.) nema hugsanlega þá hluta heimsins sem eru í sjónlínu hjá honum þá stundina. Auk þess að hafa óljósa heimsýn þá hefur hann einnig takmarkaðan tíma og auðlindir (s.s. tölvuminni, reikniafl) til ákvörðunartökunnar.
Nokkrar aðferðir hafa verið uppgvötaðar til að læra inn á slík umhverfi og taka vitrænar ákvarðanir út frá þeim. Það sem mig langaði að athuga var hvort að hægt væri að útfæra almenna aðferð sem gæti aukið afköst leitarinnar (með því að fækka þeim leiðum sem skoðaðar eru) og gæti nýst í sem flestar af núverandi aðferðum. Og sérstaklega þá hvernig hægt væri að gefa leitum sem þessum einhvern vott af því "innsæi" sem við sem menn notum oftast þegar við erum að útiloka möguleika.
Og núna loksins um helgina var fyrsta skrefið tekið og staðfest með síðustu tilraunakeyrslunum mínum í dag að við höfum fundið vísi að aðferð sem gæti nýst til nákvæmlega þessa :)
Húrra.. ég er hættur við að hætta (alla vegana í bili) og ætla að fá mér helling af bjór á föstudaginn.. !!!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli