Mikið að gerast þessa helgina :)
Vignir kynningastjóri planaði þessa líka frábæru vísindaferð í Marel á föstudaginn (28.). Ég verð að viðurkenna að sjálfur var ég svakalega spenntur að kíkja í heimsókn til þeirra í Garðabæinn til að fá að fræðast betur um hvað þetta áhugaverða hátæknifyrirtæki hefur og er að gera þessa dagana í tölvum og róbótum. Sérstaklega jókst ákafinn eftir að hafa lesið aðeins um nýju róbótana þeirra og tölvusjónarskurðartækin
[sjá fréttasíðu Marel].
Þvílíkar móttökur líka hjá fólkinu í Marel, okkar beið heil hersing af tæknisérfræðingum og sviðstjórum sem spjölluðu við okkur um allar hliðar þeirrar tækni sem þeir eru að vinna í. Allt frá stjórnunarhugbúnaði í mælum og vigtum, tölvusjónarbúnaði, flokkaravinnslu, skurðarvélbúnaði, netstjórnun og stýrinetum tækjanna og til mælibúnaðar og tölvinnsluhugbúnaðar þeirra. MAGNAÐ!. Heilmiklar umræður og vangaveltur spruttu upp og sjálfur tók ég með mér til baka nokkrar hugmyndir um áhugaverð verkefni sem hægt væri að gera með þeim. Svona á þetta að vera :) Vísindaferðir FFT eru alvega að gera rétta hluti fyrir okkur framhaldsnemana.
btw. mælikvarði á hvað mikið var spjallað að þá drakk ég varla 1/2 dós af bjór og bara eina snittu.. maður talaði svo mikið :)
Sem betur fer drakk maður lítið (þó að slíkt hafi ekki verið skipulagt sérstakleg) því maður var víst búinn að lofa sér í dómgæslu í
Forritunarkeppni framhaldsskólanna 2005 sem haldin var í Háskólanum í Reykjavík núna um helgina.
Við í FFT vorum beðin um að útvega fólk til dómgæslu fyrir forritunarliðin og vorum við nokkrir masters-strákar sem tókum það að okkur að sinna þeirri skyldu :). Haldinn var undirbúningsdagur á föstudaginn þar sem liðinn mættu og logguðu sig inn á þær tölvur sem þeim hafði verið úthlutað og athuguðu hvort allt væri ekki í lagi. Aðal keppnin hófst svo á laugardagsmorguninn (úff að vakna fyrir kl 8). Keppnisdagurinn var tvískiptur og var keppt í þremur deildum eftir erfiðleikastigi, Alpha (erfiðast), Beta og Delta (auðveldast). Fyrri hluta dagsins þá var öllum liðum útvegað verkefnablað með nokkrum litlum forritunarverkefnum til að leysa og höfðu þau frá 9 til 12:30 til að leysa u.þ.b. 30 spurningar (úff.. verð að viðurkenna að nokkrar voru nú bara ansi strembnar)
Eftir hádegi þá fékk Delta deildin fleirri litar forritunarspurningar en Alpha og Beta fengu að velja sér eitt stórt forritunarverkefni til að smíða og fengu þau 5 tíma til þess. M.a. þá gátu þau valið um að smíða Ættfræðigrunn, Othello spil eða myllu.
Svakalega gaman að fylgjast með þessum krökkum og það kemur manni þvílíkt á óvart hversu góð þau eru öll í forritun og tölvu-tengdri hugsun. Gaman að því að spjalla við 14-16 ára gutta um bestu leiðina til að smíða endurkvæma útfærslu á Pascal þríhyrninginum eða að heyra einhverja tala um Touring vél, Halting vandamálið og NP-complete. Ég öðlaðist nýja trú á ungviði íslands eftir þessa keppni... :)
Hérna eru nokkrar myndir úr keppninni [þarf að fá meira pláss áður]...
Hehe.. ekki var nóg að maður hafði verið að veltast í einhverjum nörda umræðum allan daginn en þá hitti maður tölvuleikjafélagana um kvöldið. Usss.. Núna um helgina var haldið
BlizzCon en það var fyrsta leikjaráðstefna sem tölvufyrirtækið Blizzard heldur. En þeir smíðuðu m.a. World of Warcraft sem ég hef verð að dútla mér við að spila undanfarna mánuði. Í leiknum þá er ég hluti af félagi leikmanna (í leiknum, kallast guild) í því er fólk allstaðar að úr heiminum og þar á meðal 5 íslendingar (Ég, Styrmir, Óli, Bjarni og Ottó). Við ákváðum því að hittast loksins í alvöru-heimninum, splæsa í mat saman og horfa á efnið af ráðstefnunni (allt á alnetinu maður!). Þetta var þessi fínasta nördasamkoma og þakka ég Ottó sérstaklega fyrir gestrisnina að bjóða okkur heim til sín þetta kvöld :) Magnað kvöld!
Og ekki var nóg með það að upp úr miðnætti, eftir að hafa setið og tíst eins og nördar yfir tölvuleiknum og þeim nýjungum sem verið var að kynna þá skelltum við Styrmir okkur í þennan fína tölvunarfræðingahitting heima hjá Sollu. Fínt partí, flott íbúð Solla (var að sjá hana fyrst núna.. usss!) og gaman að hitta fleirra tölvufólk. :)
Nóg af bætum og bitum þessa helgina.. stefni á að nota ekki rafmagn þá næstu :)