Jæja, það er greinilegt að SKÓLINN er byrjaður. Ég er skráður í 3 kúrsa þessa önn, Machine Learning, Reinforcement learning in practice og Algorithmic Graph Theory. Allir þessir kúrsar eru krefjandi en ég hef gengið um með hnút í maganum út af Graph Theory kúrsinum þessa vikuna. Frekking.
Mætti í fyrsta tíma í síðustu viku, skildi lítið sem ekkert en var ennþá að læra inn á að hlusta á hraða ensku og tæknimálið. Mætti í annan tíma í síðustu viku, skildi MINNA :S og ákvað þá að redda mér einhverju upprifjunarefni. Mætti á þriðjudaginn í þessari viku og skildi ekki jack shitt (en allir hinir PhD nemendurnir voru ALVEG með á nótunum) freck! Var þá farinn að hafa nokkrar áhyggjur því föstudagurinn í þessari viku er síðasti séns að skipta um kúrsa og ég vildi ekki vera að eyða tíma í eitthvað sem greinilega var langt frá mínum skilningi eða getu. Ákvað því að fara og hitta prófessorinn sem kennir kúrsinn, hinn kaldhæðna en bráðfyndna Ryan Hayward.
Ég trítlaði ansi álútur upp á 3ju hæð í Athabasca byggingunni og spjallaði aðeins við hann um námskeiðið, nauðsynlegan bakgrunn og efni. Komst þá að því að HR hefði betur kennt mér tölvunarfræði á ensku því það er þvílíkt átak að reyna að snara öllum þeim tækniorðum sem maður þekkir yfir á enska tungu. (Taki það til sín þeir sem geta einhverju breytt að tölvunarfræði ætti að kenna eingöngu á ensku, ekkert bull þetta kemur manni bara í haus seinna meir þegar maður fer erlendis í nám!)
Ryan var mjög indæll, gerði nokkurt kaldhæðnislegt grín af því að ég var alltaf að kynna mig aftur og aftur fyrir honum (nauðsyn því ég gleymi alltaf hvað fólk heitir þar til í 3ja skipti sem ég hitti það). Hann bað mig um að skila til sín sönnun á því að bipartite gröf og compliment þeirra tilheyrðu flokki perfect grafa fyrir næsta tíma. Ég fékk nokkrar góðar bækur lánaðar hjá honum og var frekar bjartsýnn á að þessi kúrs gæti alveg bjargast.
Eftir 7 tíma lestur, grát og gníst-í-tönnum þá varð ég að viðurkenna að ég hreinlega hefði ekki nógu góðan undirbúning til að geta komið þessari sönnun almennilega frá mér. Ég fór því og hitti Ryan aftur daginn eftir ansi sneyptur og bauðst til að lána honum penna til að stroka mig út af nemendalista kúrsins. Við ræddum saman stutta stund og endaði það með því að hann dró mig í stutta töflu-kennslustund í fundarherbergi í kennara álmunni. Verð að viðurkenna að ég var eins og asni, bara með basic kunnáttu í graffræði (annar punktur fyrir þá HR'inga sem lesa þetta og geta einhverju breytt) og reyndi soldið á þolinmæðina hjá honum. En einhverju náði hann þó að lemja í hausinn á mér og eftir 2ggja tíma fund þá komst hann að því að verkefnið sem hann lét mig hafa var bara andskoti erfitt. Hann bað mig því um að gera aðra sönnun, að bipartite gröf gætu ekki innihaldi circle with an odd number of verticies og við skildum sáttir.
Hehe.. eins einfalt og þetta hljómaði þá er ERFITT að skrifa upp formlega og fræðilega sönnun á ensku (enn einn punktur fyrir HR'innginn sem ræður) en ég lét mig hafa það. Hitti á hann aftur í morgun (föstudag) og skilaði inn því sem ég var kominn með. Hlátrasköllin sem ómuðu um ganginn eftir að hann las yfir sönnununina mína voru óborganleg.. svo fékk ég bara rautt krassað blað til baka (með góðum ábendingum) hann gaf mér svo 15 mín að endurgera þetta sem ég gerði og skilaði aftur inn. Fékk reyndar bara 3 rauð strik í þetta skipti en hann var sáttur og ég er miklu nær því hvernig eigi að gera slíkar sannanir í framtíðinni og staðráðinn í því að ná þessum kúrsi!!
Lærdómurinn sem ég dróg af þessu ævintýri er:
Það er ekki gert ráð fyrir því að þú kunnir allt í upphafi, berðu þig sjálfur eftir hjálp frá öðrum, lærðu, fáðu leiðsögn og lærðu af eigin mistökunum (og helst ekki gera sömu mistökin tvisvar). Þú lítur einungis heimskulega út ef þú lærir ekkert.
Fyrir ykkur sem viljið þá er endanlega sönnunin mín hérna, eins rétt og hún er.. ;) bipartite-proof.txt
Engin ummæli:
Skrifa ummæli